Um mig

Ég er femínisti og baráttukona fyrir mannréttindum sem er uppalin í Breiðholtinu. Foreldrar mínir voru frumbyggjar þar. Nýflutt til Íslands tóku þau þátt í að byggja blokkina okkar í Fífuselinu. Pabbi minn er franskur innflytjandi og mamma mín er hálf norsk og hálf íslensk, svo það má með sanni segja að ég sé af erlendu bergi brotin, þrátt fyrir að vera fædd og uppalin í Reykjavík og með íslensku að móðurmáli. Eftir 20 ár í Breiðholtinu og stúdentspróf frá Kvennaskólanum lá leið mín til Akureyrar í háskólanám sem ég lauk svo í Kennaraháskóla Íslands með B.Ed. gráðu. Þaðan fór ég í Háskóla Íslands og lauk diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu en hef einnig stundað meistaranám í því fagi. Nú bý ég í Vesturbæ Reykjavíkur með eiginmanni mínum Johan Tegelblom sem er sænskur og saman eigum við soninn Felix Hugo sem er 10 ára og gára tvo.  

Gaman að gera

Mér finnst skemmtilegast að fara í sumarkofann minn með fjölskyldu og vinum, hjóla á rafmagnsreiðhjólinu mínu, sækja söfn og listasýningar með syni mínum. Svo er dásamlegt að ferðast og verja tíma með góðum vinum, heimsækja fjölskylduna mína í Frakklandi og Svíþjóð og fara í tjaldútilegur í íslenskri sumarnáttúru.

Kennari, flugfreyja og menningarfulltrúi

Ég hef starfað í fisk- og kjötvinnslu, á leikskólum, í frístundaheimili og félagsmiðstöð, sem flugfreyja, grunnskólakennari, fræðslu- og menningarfulltrúi, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, ritari þriggja borgarstjóra, verkefnastýra um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í leik-, grunnskóla- og frístundastarf og formaður Öryrkjabandalagsins svo eitthvað sé nefnt.  

Sjálfboðaliði

Þá hef ég sinnt fjölmörgum sjálfboðaliðastörfum í þágu mannréttinda- og samfélagsmála síðastliðin 10 ár, meðal annars sem formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands. Núna er ég fulltrúi í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar, forman Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, ritari Kvenréttindafélags Íslands og stjórnarkona í EWL (European Womens Lobby) sem eru stærstu kvenréttindasamtök Evrópu. 

Viltu vita meira um mig? Smelltu hér.