Áherslur

Fjölskylduvæn borg

Er borg þar sem allar gerðir fjölskyldna fá að blómstra og njóta stuðnings og þjónustu ef þær þurfa til að geta tekið fullan þátt í samfélaginu. Ég vil huga betur að fjölbreyttum fjölskyldugerðum þar sem tekið er tillit til margbreytileikans. 

Barnvænt sveitarfélag

Þar fá börn og ungmenni tækifæri til að hafa áhrif á mál er þau varða. Ég vil að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði að fullu innleiddur á öll svið borgarinnar.

Barnamenning 

Ég vil hlúa enn frekar að barnamenningu í borginni. Þannig getum við veitt börnum fleiri tækifæri til að tjá tilfinningar sínar, finna leiðir til túlkunar á þeim og opna hugann fyrir nýjum víddum og sköpun.  Þau eru listafólk og listneytendur framtíðarinnar.  Listir og menning auðga samfélagið með margvíslegum hætti og eru uppspretta nýsköpunar. 

Barnavernd

Því miður hefur tilkynningum til barnaverndar fjölgað svo um munar á síðastliðnum tveimur árum og er því brýnna nú en nokkurn tíma áður að tryggja öryggi og velferð barna og koma í veg fyrir hverslags ofbeldi eða vanrækslu gagnvart þeim. Ég vil tryggja frekari stuðning við barnavernd í borginni.  

Algild hönnun og inngilding

Ég vil að horft sé  til hugmyndafræði algildrar hönnunar og inngildingar í öllu starfi borgarinnar, sem þýðir að samfélagið, þjónusta og umhverfi eiga að vera aðgengileg öllum óháð aldri, fötlun, kyni, kynvitund, uppruna og líkamsgerð eða annarri stöðu.

Aldursvæn borg

Ég vil tryggja að Reykjavík sé aldursvæn borg þar sem hvatt er til virkni eldri borgara með öflugum tækifærum til heilsueflingar og samfélagsþátttöku. Þá er ekki síður mikilvægt að tryggja æ betri þjónustu svo fólk geti búið sem lengst heima hjá sér.  Þannig getum við aukið lífsgæði fólks sem er að eldast.

Menntastefna Reykjavíkurborgar

Stefnan  byggir á grunnstefjum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er í innleiðingarferli. Á tímum faraldursins hefur reynst geigvænleg áskorun að halda uppi óskertu skólastarfi. Ég vil styðja enn betur við fagfólkið okkar og halda þétt utan um verkefnið svo menntastefnan verði að fullu innleidd og nái fram að ganga börnum í borginni til heilla. 

Jafnlaunastefna og jafnvirði starfa

Ég sit í stýrihópi sem er að endurskoða jafnlaunastefnu Reykjavíkurborgar og mér finnst mikilvægt að halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið í borginni við að draga úr launamun kynjanna. Þá er ekki síður mikilvægt að tryggt sé að jöfn laun séu greidd fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni. Þessa þætti þarf alltaf að vakta.

Loftslagsmálin

Eru stærstu mannréttindmál nútímans og þarf að taka tillit til þeirra í allri ákvarðanatöku. Græna planið er sóknaráætlun Reykjavíkurborgar og leggur línurnar í fjármálum, fjárfestingum og grænum lykilverkefnum sem ég er spennt að fylgja eftir.